Ella sprella

Velkomin á bloggið mitt. Ég er ekkert rosalega klár í þessu, er bara að byrja. En fyrst þú ert hérna ekki gleyma að senda mér póst.

miðvikudagur, maí 25, 2005

Eitt skref

Ég tók eitt skref til Danmerkur þegar ég keypti flugmiðana um helgina. Ég geri mér grein fyrir því núna að það eru ekki nema rúmir tveir mánuðir þangað til skólinn byrjar. Þar sem mér finnst tíminn líða hratt þá verður þetta víst mjög fljótt að líða. Ég nenni samt ekki að fara spá í hvað ég þarf að vera búin að gera og svo framvegis. Mér finnst alltof snemmt í það.

Bróðir minn var að útskrifast sem meistari í húsasmíði í gær. Til hamingju Maggi! Ég er að sjálfsögðu ægilega stolt af bróður og mætti í útskriftina í Hallgrímskirkju. Ég stóð megnið af tímanum en það var bara til að geta tekið góðar myndir af honum. Myndirnar voru hins vegar ekki nógu góðar, margar voru hreyfðar, en ég náði þó þegar hann tók við prófskírteininu. Það var svoldið fyndið en ég þekkti tvær stelpur sem voru að útskrifast á sama tíma. Önnur var Jóhanna frænka en ég kom auga á hana af algjörri tilviljun þegar ég var að skima eftir honum bróður mínum. Hin stelpan, Harpa, sat við hliðina á henni og kallaði á mig þegar ég var að heilsa henni Jóhönnu. Harpa var að vinna með mér hér á Alþingi fyrir 5 árum síðan. Til hamingju, Jóhanna og Harpa. Að útskriftinni lokinni bauð skólinn upp á pinnamat, væntanlega þar sem Iðnskólinn var að útskrifa í 100. sinn. En þar sem það var múgur og margmenni pöntuðum við okkur borð á Grillið. Við mættum þar eftir stutt stopp hjá afa en hann liggur nú á spítalanum á Hringbraut og er mikið lasinn.

Ég hef aldrei komið á Grillið þannig að ég var mjög spennt. Útsýnið er vægast sagt geðveikt og þar sem við vorum svo heppin með veður sáum við allan fjallhringinn í kringum höfuðborgarsvæðið. Þjónustan var að sjálfsögðu framúrskarandi og maturinn alls ekki síðri. Við fengum okkur villisveppasúpu í forrétt og ég fékk mér dádýr og hreindýr í aðalrétt. Þetta var geðveikt! Ég var svo södd að ég fann ekki til svengdar eða nammiþarfar í langan tíma á eftir og þurfti í rauninni að pína hádegismatnum í mig í dag.

Varð fyrir miklum vonbrigðum í dag. Keypti mér súkkulaðicroissant nema hvað það var ekkert súkkulaði í croissantinum!!! ÖMURLEGT! Þegar ég kaupi mér eitthvað sem á að innihalda súkkulaði þá er ég að kaupa það af því að það inniheldur súkkulaði. En ekki nóg með það að það var ekkert súkkulaði þá þurfti ég auk þess að borga næstum 200 kr. fyrir. Bömmer. Ekki ánægð með þetta.

Heyrumst.

föstudagur, maí 20, 2005

Júróvisjón: Wax on vision

Heitasta umræðuefnið í dag er væntanlega Júróvisjón, eða hvað? Ég hins vegar tók taekwondóæfingu fram yfir undankeppnina í gær og er mjög fegin. Ég sá þar af leiðandi ekkert af keppninni fyrir utan þegar tilkynnt var hverjir það voru sem komust áfram. Ég var búin að sjá þónokkuð af lögunum sökum hins snilldarlega samnorræna sjónvarpsþáttar sem ég veit ekki hvað heitir (Eiríkur Hauksson var dómari fyrir hönd Íslands). Þetta voru nú frekar ömurleg og hallærisleg lög en þar sem þetta er nú einu sinni Júróvisjón þá er manni nokkuð sama. En hvað með það, mér finnst það frekar fúlt að Ísland komst ekki áfram (auðvitað!). Ég er reyndar ekki dómbær þar sem ég gat ekki metið frammistöðu Selmu samanborið við önnur lönd en ég held að ég geti fullyrt að hún var með eitt af bestu lögunum (auðvitað!). En lífið heldur áfram og þar sem ég hafði ekki planað neitt á laugardagskvöldið næstkomandi er mér sama. Ég hef líka lært af biturri reynslu (sérstaklega eftir að Gleðibankinn vann ekki) að maður má ekki velta sér of mikið upp úr þessari keppni því maður gæti lent í einhverjum geðsveiflum. Það er heldur ekkert alltof sniðugt þegar besti tími ársins er framundan.

Ég kom miklu í verk í dag og það sem meira er gerði svoldið sem ég hef aldrei gert áður. Dagurinn byrjaði þegar ég reif mig á fætur um hálfníuleytið, kraftaverk þegar ég er annars vegar og þarf ekki að vera mætt í vinnuna fyrr en klukkan eitt. Dreif mig í píanótíma og eftir það í bankann til að stússast. Að því loknu fór ég í vax!!! Þetta hef ég aldrei gert áður. Ég skammast mín frekar fyrir að segja þetta sérstaklega þar sem ég er að verða 27 í júlí og ætti fyrir löngu að vera búin að þessu. Fram að þessu hef ég rakað á mér lappirnar en það er nú ekkert sniðugt, hárin koma svo fjótt aftur og eru þar að auki svo ljót. Ég gerði smá verðkönnun áður en ég pantaði tíma og komst að því að Heilsudrekinn er í lægri verðkantinum. Ég verð að viðurkenna að ég var frekar smeik en veit nú að það var algjör óþarfi. Þetta reyndist nefnilega ekki eins vont og ég hafði ímyndað mér og var fullkomlega þess virði (ég verð að taka fram að ég lét bara vaxa upp að hné og mér skilst að það sé barnaleikur miðað við margt annað). Ég stefni hins vegar að því að gera þetta sjálf, ég mun nefnilega ekki eiga mikinn pening aflögu þegar skólinn minn byrjar í ágúst. En ég held að það sé betra að fara fyrstu skiptin til einhvers sem kann þetta. Nú, eftir vaxið fór ég heim og fékk mér að borða. Þá var nú reyndar ekki mikið eftir af morgninum en ég ákvað að nýta síðustu mínúturnar áður en ég þurfti að mæta í vinnuna í sundferð. Synti hvorki meira né minna en 200 metra!!! Geri aðrir betur. Síðan lá ég í heita pottinum og reyndi að sleikja þá litlu sólarglætu sem dagurinn bauð uppá. Að sundferðinni lokinni fór ég vinnuna þar sem ég er enn þegar þetta er skrifað.

Mér skilst að það séu einhver vandræði með kommentakerfið hjá mér. Ég verð víst að leita mér aðstoðar í þeim efnum en á meðan vil ég biðja þau tvö sem þetta lesa að senda mér bara þá línu í gegnum tölvupóstinn.

mánudagur, maí 16, 2005

Við unnum!

Síðastliðnar 2 vikur (2.-13.maí) stóð yfir fyrirtækjakeppni sem ber heitið Hjólað í vinnuna. Markmiðið með keppninni var að virkja fólk til að nota eigin orku til að koma sér í og úr vinnu. Skipti ekki máli hvort farið var á hjóli, línuskautum, í strætó eða gangandi.

Vinnustaðurinn minn tók að sjálfsögðu þátt og samanstóð af nokkrum liðum. Í aðalkeppninni stóðum við okkur ágætlega, erum í 5.-6. sæti, hvort heldur sem miðað er við daga- eða kílómetrafjölda. Hins vegar var ákveðið að veita því liði innan vinnustaðarins sem skilaði flestum kílómetrum per haus verðlaun. Þar hafði mitt lið vinningin og fær að launum ilmandi bakkelsi í fyrramálið. Ég verð þó að viðurkenna að þetta stóð tæpt og sem liðstjóri varð ég að ýta við öllum í liðinu til að skila inn kílómetrum. Það tók líka á að sitja á hörðum hnakki í fyrsta skipti í 2 ár en ég verð víst að æfa mig fyrir Danmörkureisuna. Ég ætla nefnilega að fá mér hjól og hjóla mikið.

fimmtudagur, maí 12, 2005

Nýtt af nálinni

Jæja, þá ætla ég að fara að byrja á einhverju sem ég hélt að ég myndi aldrei byrja á: bloggi!!! En þar sem ég er á leiðinni út þá finnst mér ég verða að gera eitthvað svona. Þetta er svo þægileg leið til að láta vita af sér. Ég verð hins vegar að taka fram að þetta hefði aldrei orðið að veruleika hefði Hrebbna ekki hjálpað mér. Ég er nefnilega algjör auli þegar kemur að tölvum.

Ég komst að því í dag að ég kann að koma karlmanni til. YES! Í DV í dag var próf og þar sem ekki mikið var að gera í vinnunni vorum við nokkrar sem tókum prófið. Eins og allir vita þá er DV mjög áreiðanlegur miðill og öll persónuleikapróf gefa þar af leiðandi góða sýn á hvernig maður er. Svo ég vitni nú aðeins í niðurstöðurnar: "Til hamingju! Þú ert snillingur í að daðra og reyna við myndarlega menn. Þú kannt þér hóf og veist hversu langt á að ganga í daðrinu....". Hrebbna og Magga tóku líka prófið. Hrebbna kom jafnvel út og ég en það munaði litlu að Magga komst í okkar hóp, aðeins einu stigi. Hún virðist frýsa karlmenn frekar en að koma þeim til. Við Hrebbna ætlum hins vegar að taka hana að okkur og kenna en ég held að hún þurfi ekki mikla kennslu þar sem það munaði bara um eitt stig.