Ella sprella

Velkomin á bloggið mitt. Ég er ekkert rosalega klár í þessu, er bara að byrja. En fyrst þú ert hérna ekki gleyma að senda mér póst.

laugardagur, júlí 23, 2005

Skrítið

Þetta er svoldið skrítið núna. Síðasti dagurinn í vinnunni að renna sitt skeið. Það var mikið dekrað við mig í gær. Fékk þvílíkt fínar kökur og glæsilegan blómvönd frá Alþingi. Stelpurnar á símanum voru svo flottar á því að gefa mér freyðivín og uppáhalds súkkulaðið mitt (Toblerone). Ekki voru þingverðirnir síðri en þeir gáfu mér hvorki meira né minn en dansk-íslenska tölvuorðabók. Þetta var akkúrat sem mig vantaði. Vil koma á framfæri kæru þakklæti.

Maggi bróðir varð þrítugur í gær. Fjölskyldan skundaði öll á Argentínu. Flestir fengu sér t-bone steikur, ég og pabbi fengum okkur hreindýr og Barbara lamb. Mamma var frekar óheppin með kjöt, það var svo seigt öðrum megin að það var ekki vinnandi á því. Hreindýrið var ALLTOF hrátt og bað ég um að það yrði steikt meira. Ég skammast mín alltaf þegar ég þarf að biðja um eitthvað svona en ég er þó að borga mikinn pening fyrir matinn og ætti því að vera í fullum rétti að kvarta. Pabbi var alveg sammála mér en lét sig þó hafa það. Þetta var algjörlega ólíkt hreindýrinu sem ég og pabbi fengum á Grillinu núna í vor. Ég hef sjaldan ef ekki aldrei bragðað á jafn góðum mat og þá. Þangað fer ég aftur. Annars var Barbara að koma frá kóngsins Köben og við höfðum margt að tala um. Svo erum við nú líka langt komin með bústaðinn fyrir austan og það var nú líka talsvert skrafað um það.

Vá, núna eru bara tveir tímar eftir af vinnunni og síðan bara allt búið! Skrítið......

þriðjudagur, júlí 19, 2005

Komin með íbúð

Loksins, loksins, loksins. Komin með íbúð á Österbro. Íbúðin er tæpir 50 fermetrar, björt og á besta stað. Fæ hana afhenda kvöldið sem ég lendi þannig að ég þarf ekki að eyða pening í gistingu fyrstu nóttina. Mjög ánægð og mikill léttir. Segi meira seinna.

mánudagur, júlí 18, 2005

Íbúðamál

Vildi bara aðeins láta vita af stöðu íbúðamála. Eins og frægt er orðið (eða kannski ekki) þá standa eða stóðu íbúðamálin mín í tengslum við Danmerkurförina ekkert alltof vel. Ég náttúrulega trúði því statt og stöðugt að ég myndi komast inn í eitthvert kollegi. En svo bregðast krosstré sem önnur og þá voru góð ráð dýr og margur er knár þótt hann sé smár.......Allaveganna ég fór að leita á netinu og fann fullt af leigusíðum. Nema hvað að eiginlega allar síðurnar rukkuðu mann um 500 danskar til að fá upplýsingar um leigjandan. Mér finnst það fullmikið, gæti keypt mér skópar fyrir peningin, þannig að ég fór bara á den blå avis eins og kemur fram í greininni fyrir neðan. Ég fékk nokkur svör og ég stend núna með 4 möguleika um íbúð. Ég er ekkert smá ánægð. Loksins get ég farið að pakka niður vitandi að ég hef svefnstað. Það er ekkert eins óþægilegt og að vera að fara til útlanda og vita ekki hvar maður á að sofa næstu mánuði! En þetta er nú ekki alveg komið í höfn ennþá, ég er að bíða núna eftir símtali frá konu sem er að leigja íbúð á Osterbro og ég er mjög spennt fyrir þeirri íbúð. Ókosturinn við hana er að hún er frekar dýr. Svo fékk ég bréf frá einhverjum Lars og sem sagði að ég hljómaði eins og fullkominn leigjandi fyrir íbúðina. Ég er núna að bíða eftir myndum af íbúðinni og heimilisfangi því ég vil geta hjólað í skólann minn og taekwondoklúbbinn. Allaveganna, svona standa íbúðamálin hjá mér núna. Læt vita þegar þetta er komið í höfn.

Med venlig hilsen,
Ella

laugardagur, júlí 16, 2005

Þreytt!

Ég er núna svoldið mikið þreytt. Ég fór náttúrulega alltof seint að sofa og þurfti síðan að vakna núna í morgun kl. 8 til að mæta í vinnu. Núna er ég búin að hanga fyrir framan skjái í næstum 7 tíma ásamt því að spila vegasútgáfuna af Solitaire svona 500 þúsund sinnum og hlusta á sömu ömurlegu lögin á X-inu aftur og aftur og aftur af því að það eru bara sömu lögin spiluð aftur og aftur og aftur. Heilinn er orðin ansi steiktur eða kannski meira soðinn. Þetta er ekki nógu gott því það verður stelpudjamm hjá Elsý í kvöld! Hlakka mikið til enda verður í boði staup af Fisherman friend líkjöri og það leynir víst á sér. Vona bara að það veki mig frekar en að rota því mig langar í smá djamm áður en maður fer út. Læt vita hvernig fer.....

Annars fór gærdagurinn ásamt deginum í dag að leita að leiguhúsnæði. Fór inná den blå avis, keypti mér aðgang fyrir 250 danskar og fór að leita. Fann fullt af fínum íbúðum og sendi 20 email í dag og í gær og er bara búin að fá eitt svar á þá leið að búið var að leigja viðkomandi íbúð
: ( Fann eina sem mér leist rosalega vel á. Fékk Sillu, systur Andrésar, til að hringja fyrir mig í viðkomandi og auðvitað var enginn heima og við fengum bara símsvarann. Ég er farin að halda að það að finna íbúð í Kaupmannahöfn er óvinnandi vígi. Annars fer ég á Þingvöll á morgun ásamt Andrési og mamma hans, Bidda, ætlar að hringja fyrir mig út. Ég er svo hrikaleg í dönskunni og ég vil ekki leggja á fólkið þarna úti að tala á ensku því mér finnst vera meiri líkur á að fá íbúð tali maður dönsku og þá eru líka minni líkur á misskilningi. Þá er bara að krossleggja fingur.

Annars er ég að fara að fljúga með Möggu annað hvort á þriðjudaginn næsta eða sunndaginn eftir viku. Hlakka ekkert smá til.

þriðjudagur, júlí 12, 2005

Rusturen

Er ekkert smá ánægð með skólann minn verðandi. Fékk bréf í byrjun júlí þar sem stóð hvar og hvenær maður á að mæta. Skólinn byrjar 4. ágúst þannig að það er vissara að hafa það á hreinu. Bréfinu fylgdi líka upplýsingar um "rusturen" en það er víst ferðalag gert til að hrista hópnum saman. Það er sem sagt búið að undirbúa fyrstu fyllerísferðina strax, jafnvel áður en maður hefur hugmynd um hvernig stundatafla lítur út eða hverjir verða með manni í bekk eða hver kennir manni og svo framvegis. Þetta kalla ég sko flott vinnubrögð.

Ferðalagið byrjar föstudaginn 5. ágúst um hádegi og er ferðinni heitið eitthvert suður á strönd. Það verður víst grillað, drukkið og leikið fram á sunnudag. Mjög spennandi allt saman.

Annars er ég að fara að spila fótbolta í kvöld. Við erum nokkrar fyrrverandi fótboltahetjur sem ætlum að hittast og leika okkur. Hlakka til að þurrka rykið af fótboltatöktunum, þeir eru víst orðnir ansi ryðgaðir.

laugardagur, júlí 09, 2005

Harðsperrur

Ég er búin að vera í æfingabúðum í sparring síðan á fimmtudag. Reyndar fór ég bara á fimmtudaginn og í gærkvöldi. Treysti mér hreinlega ekki (eða nennti kannski ekki) á æfinguna sem var í morgun. Ég var náttúrulega að drepast úr harðsperrum eftir fyrstu æfinguna og ekki skánaði ástandið eftir föstudagsæfinguna. Þetta einangraði sig reyndar bara við rassinn sem veitti ekki af. Hefur verið frekar slappur undanfarið........

Ég og Andrés erum núna að passa upp á kött sem heitir Branda og er algjör prinsessa. Við þurftum að flytja upp í Kópavoginn til að búa hjá henni af því að hún er inniköttur og þarf 150 % athygli. Við verðum að passa hana í 2 vikur á meðan fjölskyldan hennar dvelur erlendis. Þetta er mjög fyndin köttur. Hún drekkur bara rennandi vatn úr vaskinum inni á klósetti og þegar maður sefur þá liggur hún á manni eins og hún sé að passa upp á mann. Fyrstu nóttina var þetta svoldið óþægilegt enda er maður óvanur þessu en þetta er strax orðið betra. Ef maður réttir henni síma svarar hún alltaf með mjálmi líkt og hún sé að tala við mann. Algjör dúlla. Annars móðgaðist hún svoldið í dag en við þurftum og gefa henni pilluna. Réttara sagt þurftum við að troða pillunni í kokið á henni og passa uppá að hún hrækti henni ekki út úr sér með því að halda um trýnið. Ég held samt að hún sé búin að fyrirgefa okkur.

Þetta er náttúrulega gamall draumur að rætast en mig er búið að dreyma um að eiga kött síðan ég man eftir mér. Ég var alltaf að suða í mömmu en það kom aldrei til greina enda hún ekki mikil dýramanneskja. Það var alltaf sama viðkvæðið: "þú mátt fá þér fisk". Jei!!! af því að það er svo gaman af fiskum syndandi í búri, maður fær svo mikil viðbrögð frá fiskum! Nei, þá var alveg eins gott að sleppa því og ég var harðákveðinn í að eignast dýragarð þegar ég væri orðin stór. Eitthvað hefur farið lítið fyrir þeim draumi síðan þá en ég væri alveg til í að eignast hund eða kött í framtíðinni. Allaveganna rólegan hund eða kött, mér leiðast hávær dýr sem eru alltaf að ráðast á mann.

laugardagur, júlí 02, 2005

Veit ekkert hvað titillinn á þessu bloggi á að heita.....

Ég er alveg í skýjunum með nýja kommentakerfið. Er búin að fá 3 komment við síðustu grein. En þar sem það er að sjálfsögðu ekki hægt að sætta sig við að ég bloggi í gegnum kommentakerfið þá verð ég nú að standa mig og blogga almennilega ; )

Það sem helst ber til tíðinda þessa dagana hjá mér er að í gær fékk ég tilboð um herbergi í Österbro. Þetta er þó skammgóður vermir því ef ég ætla að taka herbergið þarf ég að reiða fram um 270 þúsund íslenskar krónur í næstu viku. Já, herrar mínir og frúr, 270 þúsund. Svo ég útskýri þetta aðeins betur þá er um að ræða 24. fermetra herbergi með pínulitlu eldhúsi (enginn ofn, bara hellur) og klósetti. Mánaðarleiga á þessu herbergi er um 42 þúsund krónur íslenskar sem mér finnst heldur betur alltof mikið. Ég þarf sem sagt að borga mánaðarleigu fyrir júlí og 3 næstu mánuði þar á eftir. En ég þarf líka að borga tryggingu upp á 115 þúsund krónur sem ég fæ reyndar afhentar þegar ég flyt ef allt er fínt og flott ennþá. Kannski er ég að gera mistök en ég ætla ekki að taka þessu. Planið núna er bara að reyna að redda sér einhvern veginn þangað til ég kemst inn á kollegi. Mér finnst þetta í rauninni brjálæðisleg upphæð. Eini kosturinn sem ég sé við þetta kollegi er að það er alveg nýtt svo það er örugglega snyrtilegt. Svo skilst mér að Österbrohverfið sé fínn staður til að búa á. En þar sem ég er bara fátækur námsmaður verð ég að leita að einhverju öðru : (

Annars er voða lítið að frétta. Ég bara vinn og vinn....... Reyndar er ástandið hér í vinnunni orðið mjög krítískt því við erum svo fá. Það má enginn vera veikur eða missa að öðru leyti úr vinnudegi því annars fokkast allt upp. Ég lenti til dæmis í því í gær að einn var veikur og allt leit út fyrir að ég yrði að vera ein allan morguninn. Þeir sem til þekkja vita að það gengur alls ekki en Andrés reddaði mér þó hann hefði verið á vakt alla nóttina. Ég er þó að vona að þetta fari nú að róast, búið er að loka mötuneytinu og Skálanum verður lokað þegar hið mjög svo endingargóða parket verður pússað. Það ætti því enginn að vilja hingað inn í Skálann. Spurningin er hins vegar hvort við þurfum ekki að vera að hlaupa út um allt......?

Annars var ég að frétta að Hanna frænka mín var að kaupa sér sína fyrstu íbúð í Hafnarfirði. Innilega til hamingju með það Hanna!